Áföll – verkferill
Viðbrögð skólans við slysi/dauða nemanda eða starfsmanns.
Fyrstu viðbrögð
1. Hefjast handa! Erfitt getur reynst að leiðrétta sögusagnir ef ekki er gripið strax inn í
atburðarásina. Ef starfsmaður fréttir af alvarlegu slysi eða andláti nemanda eða starfsmanns
lætur hann skólameistara eða skrifstofustjóravita.
2. Skólameistari fær staðfestingu á andláti eða slysi hjá aðstandendum, lögreglu eða
sjúkrahúsi.
3. Skólameistari eða skrifstofustjóri kallar áfallaráð skólans saman. Fyrsti fundur ætti að vera
stuttur, þar sem verkum er skipt og fyrstu aðgerðir skólans ákveðnar.
4. Skólameistari ásamt áfallaráði kallar starfsfólk skólans saman og tilkynnir starfsfólki hvað
gerst hefur og útskýrir hvernig skólinn hyggst taka á málum.
5. Skólameistari ásamt áfallaráði kallar nemendur og starfsfólk skólans saman á sal og segir
þeim frá atburðinum. Æskilegt er að leyfa nemendum og starfsfólki að ræða um atburðinn og
líðan sína.
6. Sé um dauðsfall að ræða:
a) Tæknistjóri flaggar í hálfa stöng
b) Skrifstofustjóri setur fram dúkað borð og kveikir á kerti.
7. Í lok skóladagsins fundar áfallaráð skólans með starfsmönnum og fer yfir nöfn þeirra sem
tengjast atburðinum s.s. samnemendur, vinnufélagar og vinir. Aðgerðir næstu daga ræddar.
Viðbrögð næstu daga
1. Hlúa að nemendum og starfsfólki. Nemendum og starfsfólki gefinn kostur á að vinna með
líðan sína. Boðið upp á einstaklingsviðtöl. Skólameistari ásamt áfallaráði metur þörf á
eftirfylgd eða utanaðkomandi aðstoð t.d. frá sálfræðingi, áfallateymi við heilsugæslustöð
o.s.frv.
2. Hafi nemandi eða starfsmaður látist, er hins látna minnst með sameiginlegri athöfn í umsjá
prests. Skrifstofustjóri sér um að minningabók liggi frammi.
3. Tæknistjóri flaggar á jarðarfaradag.
4. Haldið áfram næstu vikur og mánuði að hlúa að nemendum og starfsfólki skólans. Gefa
gaum að áfallastreitu meðal nemenda og starfsfólks skólans. Bjóða upp á hópvinnu eða
einstaklingsviðtöl ef þörf er á.
Alvarleg slys í skóla
Sá starfsmaður sem kemur fyrstur að alvarlegu slysi í skólanum tekur verkstjórn og fær aðra
nærstadda í lið með sér þar til sjúkraflutningamenn koma á staðinn:
Fyrstu viðbrögð
1. Tryggja öryggi á slysstað
2. Veita Neyðarhjálp
3. Tilkynna slysið með því að hringja í 112
4. Veita almenna skyndihjálp
5. Senda einhvern nærstaddan til skólameistara til að tilkynna slysið.
6. Skólameistari tilkynnir atvikið til vinnueftirlits eftir atvikum.
7. Skólameistari biður viðkomandi starfsmann að skrá niður vitni að slysinu.
8. Skólameistari sér til þess að aðrir starfsmenn verði látnir vita.
9. Skólameistari sér um tengsl við aðstandendur og/eða sjúkrahús eftir atvikum.
Áfallaráð
Áfallaráð fer með verkstjórn þegar válegir atburðir gerast sem snerta nemendur og starfsfólk
skólans. Skólameistari er ábyrgur fyrir því að virkja áfallaráð. Mikilvægt er að þeir sem
veljast í áfallaráð geti unnið undir miklu álagi og séu vel undir það búnir að veita sálrænan
stuðning/áfallahjálp.
Í áfallaráði eru:
• Skólameistari
• Skrifstofustjóri
• Náms- og starfsráðgjafi
Áfallaráð á einnig að geta leitað til sóknarprests
Stórhöfða 27 • 110 Reykjavík • Sími: 540-0160 • rafmennt@rafmennt.is • Kt. 590104-2050