Markmið

Markmið rafvirkjabrautar er að búa nemendur undir að geta starfað sjálfstætt við almenn störf rafvirkja. Að loknu námi eiga nemendur að þekkja og kunna að vinna með helsta tækjabúnaði sem notaður er af rafvirkjum, geta lagt rafmagn í byggingar, unnið við stýringar og rafvélar. Nemendur verða færir um að starfa við framleiðslu og dreifingu raforku. Rafvirki á hæfniþrepi 3 býr yfir hæfni til að vinna sjálfstætt, veita ráðgjöf, gera ítarlegar tíma- og kostnaðaráætlanir sem og skila sinni vinnu í samræmi við væntingar. Hann hefur djúpan skilning á þeim búnaði, verkferlum og fræðum sem snúa að hans vinnu. Hann getur viðað að sér aukinni þekkingu í samræmi við þau verkefni sem fyrir liggja með því að nýta sér miðla og upplýsingar sem snúa að faginu og notað hina auknu þekkingu við störf sín.

Skipulag

Rafvirkjanámið er skipulagt eftir efnisþáttum í verkefni sem geta tengst einum eða fleiri áföngum. Námið er verkefnastýrt þannig að skilgreindur verkefnahópur samsvarar ákveðnum áföngum. Með því er átt við að námið stýrist af verkefnum nemandans til að ljúka áföngum. Þannig ræðst námshraði af vinnusemi, kunnáttu og getu einstaklingsins. Þessar kennsluaðferðir ásamt áherslu á fjarnám með vendikennslu („flipped classroom“) gera það að verkum að nemendur geta kynnt sér námsefnið á neti áður en komið er í kennslustofu. Nemendur vinna verkefnin og skila lausnum eftir því sem við á. Gerð verður tímaáætlun verkefnaskila við upphaf kennslu sem verður endurskoðuð eftir framgangi. Þannig er sveigjanleiki námsins aukinn til hagræðis fyrir nemendur sem t.d. eru í vinnu samhliða námi.

Innan starfstíma eru tvenn annarlok, desember og júní. Einkunnir eru gefnar út við annarlok og nemendur sem ljúka námi fá útskrift. Þeir nemendur sem ekki ljúka áfanga/um innan annarloka færast yfir á næstu önn án falls. Verkefnavinna flyst því milli anna og gerð verður ný áætlun um lok verkefna.

Ný námsskrá