Kvikmyndaiðnaðurinn er í eðli sínu margþættur og að honum koma fjölmargir aðilar, hver með sérþekkingu á sínu sviði. Námi í kvikmyndatækni er ætlað að búa nemendur undir fjölbreytt störf í heimi kvikmyndagerðar. Störfin sem um ræðir eru fjölmörg en í náminu verður einblínt á að kenna þau fög sem tengjast tækninni sjálfri, bæði við undirbúning, framkvæmd og eftirvinnslu kvikmyndaverks auk annarra tengdra greina. Kvikmyndatækni er í eðli sínu hópvinna. Því er mikilvægt að þeir sem að kvikmyndagerðinni koma hafi víðtæka þekkingu, ekki bara á sínu sérsviði heldur þekki til starfa annarra aðila til að tryggja farsæla framvindu verkefnisins. Nemendur sem útskrifast úr kvikmyndatækni eiga að vera vel í stakk búnir til að takast á við flest störf við kvikmyndagerð, allt frá hugmyndavinnu til lokafrágangs.
Nemendur hafi lokið grunnskólaprófi og 60 einingum í framhaldsskóla. Þar af þurfa þeir að hafa lokið að minnsta kosti 10 einingum í lífsleikni og menningarlæsi/náttúrulæsi á 1.þrepi. Enn fremur hafi nemendur lokið 15 einingum í íslensku, ensku og stærðfræði á 2. þrepi – einum áfanga í hverri grein. Aðrar einingar til viðbótar mega vera almennt bóknám eða iðngreinar.
Nám í kvikmyndatækni er 120 einingar. Náminu er skipt niður á fjórar annir. Námið byrjar strax á sérhæfðum áföngum kvikmyndatækni og er námsframvinda línuleg yfir 4 annir. Heildar einingafjöldi með fornámi er 180 einingar.
Tilgangur námsmats er m.a. að veita nemendum leiðsögn meðan á námi stendur. Nauðsynlegt er að kennarar skilgreini áfangamarkmiðin þannig að þau séu skýr viðmið við námsmatið. Matsaðferðir eiga að vera fjölbreyttar. Þær skulu vera í samræmi við hæfniviðmið, endurspegla áherslur í kennslu og taka mið af nemendum. Meta þarf alla þætti námsins, þekkingu, leikni og hæfni með hliðsjón af hæfniviðmiðum. Leggja skal áherslu á leiðsagnarmat þar sem nemendur velta reglulega fyrir sér námi sínu með kennurum til að nálgast eigin markmið og ákveða hvert skuli stefna. Þannig skal meta munnleg verkefni, verkleg og skrifleg, myndræn, stuttar afmarkaðar æfingar og dýpri athuganir, einstaklingsverkefni og hópverkefni, verkefni sem unnin eru á afmörkuðum tíma og óafmörkuðum og próf af ýmsu tagi. Stafræn mappa eða ferilbók, þar sem safnað er saman verkefnum og úrlausnum getur hentað vel til að fá yfirsýn yfir hversu vel nemandinn hefur unnið og gefið vísbendingar um hvernig hann hefur tileinkað sér markmið námsins og hvaða hæfni hann sýnir með verkum sínum. Námsmat þarf að taka tillit til þarfa nemenda og sértækra námsörðugleika þeirra. Lögð er áhersla á að námið sé verkefnastýrt. Það þýðir að nemendur vinni samþætt verkefni innan sem utan tíma með kennara og skili á tilteknum tímum eftir fyrirmælum kennara.
Nánari upplýsingar um skipulag námsins, skv. námskrá, og áfangalýsingar má finna í listanum hér fyrir neðan:
Námsgreinar |
Einingar |
Kvikmyndafræði | 8 |
Kvikmyndagerð | 22 |
Handritsskilningur | 1 |
Hljóðvinnsla | 16 |
Ljósmyndun | 4 |
Myndvinnsla | 20 |
Kvikmyndataka | 16 |
Kvikmyndaframleiðsla | 11 |
Rafmagnsfræði | 4 |
Starfskynning | 6 |
Þáttagerð | 4 |
Samtals einingafjöldi | 120 |
Stórhöfða 27 • 110 Reykjavík • Sími: 540-0160 • rafmennt@rafmennt.is • Kt. 590104-2050