Iðnmeistaranám á sér stoð í iðnaðarlögum svo og lögum og reglugerðum um framhaldsskóla. Samkvæmt lögum um framhaldsskóla er menntamálaráðuneytinu skylt að halda uppi framhaldsnámi fyrir iðnsveina til meistaraprófs í því skyni að veita aukna þekkingu í starfsgrein sinni, stjórnun og rekstri fyrirtækja. Í reglugerð um framhaldsskóla segir að meistaranám skuli skipuleggja sem eðlilegt framhald iðnnáms og að það skuli, eftir því sem við verði komið, tengt iðnfræði- og tæknifræðinámi. Ný námskrá iðnmeistaranáms hefur tekið gildi og er meistaranámið skipulagt skv. henni frá og með janúar 2019. Þeir sem hófu nám skv. eldri námskrá færast yfir í þá nýju.
Markmið meistaranáms er að veita þeim sem lokið hafa sveinsprófi fræðslu og þjálfun svo þeir geti fengið meistarabréf og staðið fyrir sjálfstæðum rekstri í iðngrein sinni, stjórnað verkum og kennt nýliðum vinnubrögð, öryggisreglur og iðnfræði.
Eingöngu löggiltir rafverktakar mega taka að sér rafverktöku og/eða annast viðgerðir á hvers kona rafföngum. Upplýsingar um löggildingu rafverktaka, kröfur um menntun, starfsreynslu og fleira varðandi rafmagnsöryggi má finna á vef Húsnæðis og mannvirkjastofnunar.
Iðnmeistarar gegna ólíkum störfum og hlutverkum og vinna við mismunandi aðstæður allt eftir eðli starfseminnar, stærð fyrirtækis og stöðu meistara innan fyrirtækis. Í litlu iðnfyrirtæki af þeim toga sem hvað algengust eru hér á landi er meistarinn allt í senn; atvinnurekandi, stjórnandi, faglegur leiðtogi og kennari eða leiðbeinandi. Í stærri fyrirtækjum er um að ræða hreinni verkaskiptingu og hefur það færst í vöxt að viðskiptamenntað fólk sjái um fjármálahlið fyrirtækisins en meistarar gegni aðallega stjórnunarstörfum og faglegri umsjón og leiðsögn.
Stórhöfða 27 • 110 Reykjavík • Sími: 540-0160 • rafmennt@rafmennt.is • Kt. 590104-2050