Flott viðurkenning fyrir rafiðnaðinn
Stórsýningin Verk og vit var haldin í sjötta sinn dagana 18. – 21. apríl 2024 í Íþrótta- og sýningarhöllinni í Laugardal. Rafmennt fékk 1. verðlaun á sýningunni fyrir athyglisverðasta sýningarsvæðið.
Í flokknum Athyglisverðasta sýningarsvæðið var m.a. metið form, grafík, litasamsetning, hversu athyglisvert það væri og hvort sýningarsvæðið endurspeglaði viðkomandi starfsemi.
,,Það er mikil viðurkenning að vinna til þessara verðlauna og það er flott viðurkenning fyrir rafiðnaðinn í landinu. Þetta er búin að vera frábær sýning og hún er alltaf að verða flottari. Það er mikið lagt í hana og bæði framkvæmdaaðilar hennar og sýnendur hafa mikinn metnað að gera hana sem glæsilegasta. Það er gaman að fá svona mikið af fólki í heimsókn og mér þótti sérlega gaman að fá hingað mikinn fjölda 10. bekkjarnema í gær. Þau voru mjög áhugasöm og það er afar gaman að nálgast þennan hóp,“ segir Þór Pálsson, framkvæmdastjóri Rafmennt.
Að mati dómnefndar, þótti sýningarsvæði Rafmennt mjög svo lýsandi fyrir þeirra starf og fangaði sýningarrýmið athygli gesta strax. Sýningarmunir eru aðgengilegir og vel sýnilegir og höfða vel til markhópsins. Einnig var vel staðið að fræðslu og kynningarháttum og var það bersýnilegt að fulltrúar Rafmennt náðu að fræða og upplýsa sína gesti á skemmtilegan hátt.
Stórhöfða 27 • 110 Reykjavík • Sími: 540-0160 • rafmennt@rafmennt.is • Kt. 590104-2050