Fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Iðunnar fræðsluseturs og RAFMENNTAR hafa undirritað samkomulag vegna breytinga á vinnustaðanámi.
Breytingarnar eru tilgreindar í nýrri reglugerð mennta- og menningarmálaráðherra, en þar er framhaldsskólum falið að hafa umsjón með nemum í vinnustaðanámi og tryggja að þeir fái þjálfun sem uppfyllir tiltekin hæfniviðmið, í samstarfi við atvinnulífið.
Markmið reglugerðarinnar er að efla iðn- og verknám, fjölga nemendum og veita þeim og fyrirtækjunum betri þjónustu.
Athöfnin fór fram í húsnæði vélsmiðjunnar Héðins í Hafnarfirði, að viðstöddum hópi fólks sem hefur tekið þátt í undirbúningnum.
Með samstarfsyfirlýsingu þessari lýsa félögin f.h. atvinnulífsins sig reiðubúin til að:
- Aðstoða framhaldsskóla við að finna pláss á vinnustöðum til að koma nemum á iðnmeistara-, fyrirtækis- eða stofnanasamning, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar.
- Aðstoða framhaldsskóla við að finna pláss á vinnustöðum fyrir nemendur á skólaleið, sbr. 6. gr. reglugerðarinnar.
- Hvetja fyrirtæki til að bjóða nemum í vinnustaðanám og stuðla að því að ávallt séu til staðar hæf fyrirtæki sem geta tekið nema.
- Sinna eftirliti með fyrirtækjum, veita umsögn um að þau uppfylli sett skilyrði um hæfni og koma upplýsingum þess efnis til Menntamálastofnunar þannig að skrá stofnunarinnar yfir fyrirtæki sem geta tekið nema verði ávallt sem réttust.
- Aðstoða framhaldsskóla við að skipuleggja vinnustaðanám hjá fleiri en einum vinnustað í samræmi við 4. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar ef þess þarf vegna nýrra hæfniviðmiða.
- Aðstoða vinnustaði við að skipuleggja vinnustaðanám í samstarfi við framhaldsskóla í þeim tilgangi að fullnýta getu fyrirtækja til að taka fleiri nema á samning þar sem verkefni og vinnuálag hjá fyrirtækjum dreifist með mismunandi hætti yfir árið.
- Aðstoða framhaldsskólana í starfsgreinum þar sem vinnustaðapláss skal vera til reiðu við upphaf náms. Atvinnulífið vill aðstoða þá sem áhuga hafa á slíku námi en hefur ekki tekist að komast í vinnustaðanám við að nálgast fyrirtæki sem heimilt er að taka nemendur á samning.
- Aðstoða vinnustaði við innleiðingu á rafrænum ferilbókum í samstarfi við Menntamálastofnun og framhaldsskólana.