Í desember 2024 var undirritaður nýr kjarasamningur á milli Samtaka atvinnulífsins og Rafiðnaðarsambands Íslands. Samningurinn kveður á um að hægt sé að innleiða hæfnilaunakerfi í stað hefðbundinna launataxta og álagsgreiðslna í einstökum fyrirtækjum. Í hæfnilaunakerfinu eru skýr viðmið um launaþróun byggð á hæfni og frammistöðu starfsmanna.

 

Nú hafa 5 tæknistörf verið hæfnigreind og opnað hefur verið fyrir umsóknir um fagbréf í kvikmyndastjórn, ljóstækni, ráðstefnutækni, tímabundnum burðarvirkjum og sviðsstjórn.

 

Til að hljóta fagbréf sækir umsækjandi um mat á sínu starfi og skilar inn sjálfsmati. Hæfni hans er síðan metin í raunfærnimatsviðtali með matsaðila, þar sem farið er yfir matslista starfsins. Ef nauðsyn krefur er umsækjanda einnig boðið að leysa verkefni eða próf til staðfestingar á hæfni. Að því loknu fer fram fræðsla og þjálfun þar sem það á við, en þegar öllum hæfniviðmiðum er náð er Fagbréf atvinnulífsins veitt.

 

Félagsfólk í Félagi Tæknifólks fær matið að fullu niðurgreitt. Aðrir umsækjendur greiða 80.000 kr fyrir hvert fagbréf og 16.000 kr fyrir hvern hæfniþátt sem krefst frekari þjálfunar. Hægt er að sækja um styrki til menntasjóða stéttarfélaga til niðurgreiðslu á kostnaði.

 

Skráningu og allar helstu upplýsingar er að finna á fagbref.rafmennt.is .

 

Með Fagbréfi atvinnulífsins er stuðlað að aukinni fagmennsku og hæfni í tæknistörfum, sem styrkir bæði starfsfólk og fyrirtæki í síbreytilegu atvinnuumhverfi.