Námsmarkmið

Að skoða einkenni stjórnandans, s.s. sjálfstraust, samskipti, viðhorf, gildi og áhrif hans á umhverfi sitt. Að fá stjórnandann til að huga að sínum stjórnunarstíl og áhrifum sem hann getur haft á fólkið sitt. Stjórnandinn geri sér grein fyrir helstu stjórnunarkenningum og aðferðum. Lögð er áhersla á að þátttakendur geti yfirfært það sem kennt er á dagleg störf.

KENNSLUFORM

Fyrirlestur, umræður, verkefni, dæmisögur og myndskeið. Á þessu námskeiði er gert ráð fyrir að þátttakendur vinni verkefni milli námskeiðsdaga.

LENGD NÁMSKEIÐS

Námskeiðið er 16 klst. Miðað við að hver dagur séu fjórar klukkustundir. Möguleiki er á að sníða námskeiðið að þörfum fyrirtækisins hvað efnistök og tímalengd varðar.

Námskeiðslýsing

Námskeið fyrir starfsfólk með mannaforráð. Farið er yfir stjórnunarstíla og hvernig hægt er að ná betri árangri með því að tileinka sér ákveðnar leiðir. Fjallað verður m.a. um stjórnandann út frá sjálfstrausti, framsetningu skilaboða og upplýsingaflæði, greint frá mikilvægi þess að hvetja og hrósa starfsfólki. Einkenni framúrskarandi leiðtoga skoðuð og fjallað um mismunandi stjórnunaraðferðir. Farið yfir þá þætti sem skipta starfsfólk máli í starfi. Einnig komið inn á fyrirtækjamenningu, aðlögun og innleiðingu breytinga ásamt markmiðasetningu.

Algeng uppsetning á dagskrá stjórnunarnámskeiðs RM Ráðgjafar:

1. Dagur – Tímastjórnun og skipulag

Markmiðið er að gera þátttakendur meðvitaðri um sína tímastjórnun og vinnuskipulag með það að marki að auka skilvirkni og árangur í starfi.

Fjallað um hvernig við stýrum vinnu okkar, verkefnum og tíma, og hvernig við komumst yfir öll þau verkefni sem liggja fyrir. Unnið er m.a. með markmiðasetningu og yfirfærslu hennar á dagleg störf þátttakenda. Til að greina mikilvægi verkefna og skipulag á þeim er einnig farið m.a. í Parkinson- og Pareto lögmálin.

Verkefni milli námskeiðsdaga: Finna leiðir í vinnu til að spara tíma í samræmi við umfjöllun um Pareto lögmálið þ.e. 80/20 % regluna. Þátttakendur setja sér vinnutengd markmið sem tengjast tímastjórnun og skipulagi.

2. Dagur – Sjálfstraust og samskipti

Markmiðið er að þátttakendur rýni í sig sem stjórnanda til að vinna með sína styrkleika og bæta sína veikleika.

Unnið er með hvernig stjórnandi vinnur út frá eigin sjálfstrausti og mikilvægi sjálfstrausts í samskiptum og almennt í lífinu. Einnig komið inn á sjálftal, gagnrýni, mannleg samskipti, upplýsingaflæði og leiðir til að bæta samskipti á vinnustað. Hvernig sjálfstraust starfsfólks hefur áhrif á vinnulag og árangur og mikilvægi þess að stjórnandi hafi hæfni til að átta sig á því? Hvernig best er að stýra fólki, aðferðir og áhrif og hvernig mismunandi stjórnunaraðferðir hafa mismunandi áhrif á starfsmenn?

Verkefni milli námskeiðsdaga: Þátttakendur setja sér vinnutengd markmið sem tengjast sjálfstrausti, stjórnun og samskiptum.

3. Dagur – Stjórnunaraðferðir

Markmið er að gera þátttakendur meðvitaða um sinn stjórnunarstíl og hvernig bæta má ákveðna þætti í stjórnun til að ná meiri árangri.

Farið í helstu stjórnunarkenningar og hvernig best er að nýta þær til að ná árangri. Einkenni framúrskarandi leiðtoga skoðuð. Vinnustaðamenning, fjallað um hvernig stjórnendur geta haft áhrif á vinnustaðamenningu og byggt upp sterka menningu í samstarfi við sitt fólk. Breytingarstjórnun, farið í helstu atriði breytingarstjórnunar og hvernig nýta má þau við dagleg störf.

Verkefni milli námskeiðsdaga: Þátttakendur setja sér vinnutengd markmið sem tengjast breytingum á vinnustað.

4. Dagur – Mannauðsstjórnun

Markmið er að þátttakendur geri sér grein fyrir mikilvægi mannauðsstjórnunar í stjórnun fyrirtækja, ásamt leiðum til að takast á við erfið starfsmannamál.

Farið í helstu verkefni mannauðsstjórnunar, fjallað um þroskastig fyrirtækja og farið í mikilvægi þess að stefna fyrirtækisins og mannauðsstefna séu tvinnuð saman. Einnig komið inn á mannlega þáttinn og erfið starfsmannamál.

LEIÐBEINANDI

Ragnar Matthíasson mannauðsráðgjafi – MBA og MSc. í mannauðsstjórnun. Ragnar hefur víðtæka reynslu af námskeiðahaldi og ráðgjöf. Hann hefur unnið fyrir fjölda fyrirtækja af ýmsum stærðum og gerðum.

 

Námskeiðið er kennt í staðnámi, Ármúla 4-6, 108 Reykjavík.

 


Í umsóknarferlinu birtist RSÍ endurmenntunarverð námskeiða.

Fullt verð: 89.000 kr.-

RSÍ endurmenntun:  31.150 kr.-

 

Áður en þú sendir inn umsóknina merkirðu við hvort þú tilheyrir öðrum verðflokkum og er verðinu breytt handvirkt skv. því í innrituninni

Flokkar: Almenn námskeið