Í gær, miðvikudaginn 16. apríl, komst Rafmennt að samkomulagi við þrotabú Kvikmyndaskóla Íslands um kaup á nafni, vörumerki, búnaði og öðrum verðmætum skólans. Þessi ákvörðun markar stórt skref í átt að því að tryggja áframhaldandi kvikmyndamenntun á Íslandi eftir gjaldþrot Kvikmyndaskóla Íslands í mars sl.

 

Samkomulagið felur í sér að hætt verður við að halda starfseminni áfram í húsnæði skólans við Suðurlandsbraut. Þess í stað hófst strax vinna við flutning starfseminnar og stóð hún yfir frá kvöldi 16. apríl og áfram í dag.

 

Fundir með nemendum, starfsfólki og kennurum skólans eru fyrirhugaðir 23. apríl. Þar verður farið yfir næstu skref og stefnt er að því að kennsla geti hafist að nýju eins fljótt og undirbúningsvinna leyfir.

 

Rafmennt hefur jafnframt lýst yfir vilja sínum til að styðja við starfsfólk skólans. Bakland Rafmenntar og kjaradeild Fagfélaganna munu vinna að því að koma fram kröfum á hendur þrotabúi skólans og, eftir atvikum, sækja bætur til Ábyrgðarsjóðs launa.

 

Stjórn Rafmenntar lítur á þetta sem tækifæri til að efla kvikmyndanám á Íslandi. Með því að sameina nám Kvikmyndaskóla Íslands, fyrirliggjandi kvikmyndatækninám Rafmenntar og samstarf við aðra fræðsluaðila í geiranum telur stjórn Rafmenntar að grundvöllur sé fyrir öflugt, samhæft nám sem þjónar kvikmyndagreininni í framtíðinni.