3 áfangar - 15 einingar

Nettækni og miðlun 1

Þessi áfangi er beint framhald TNTÆ2GA04DR. Þessi áfangi fjallar um nánari uppbyggingu og virkni staðarneta (LAN) , víðneta (WAN) og rauntímaneta (CANopen) með uppsetningar og þjónustu í huga. Farið er nákvæmlega í OSI-módelið og unnin verkefni með hjálp ýmissa netgreiningaforrita ásamt því að kennd og æfð er sú tækni sem er notuð við bilanaleit á staðar- og víðnetum. Æfðar eru uppsetningar á netbúnaði, netkortum, kapallögnum, svissum og beinum og hvernig villur í uppsetningum lýsa sér ásamt lausn þeirra með hjálp netgreiningaforrita. Í seinasta hluta áfangs er farið í CANopen, bæði uppsetningu og virkni. Með hjálp CAN-analyser eru skipanir CAN-netsins prófaðar. Í lok þessa áfanga þekkja nemendur uppbyggingu og virkni þessara neta, ásamt því að kunna skil á þeim búnaði sem notaður er við bilanaleit á netum og helstu aðferðum við bilanaleit. 

Nettækni og miðlun 2

Þessi áfangi fjallar um miðlægan tölvubúnað í netkerfum fyrirtækja. Nemendur læra um uppbyggingu og virkni miðlægs vélbúnaðar og netstýrikerfa. Nemendur læra um algengustu diskakerfi netþjóna ásamt því hvernig ýmsir hlutar netþjóna eru tvöfaldir og jafnvel þrefaldir til að tryggja stöðuga vinnslu þrátt fyrir einstakar bilanir. Farið er í öryggisafritun gagna og þau kerfi sem eru notuð til að tryggja örugga varðveislu afritanna. Nemendur kynnast stærri gagnageymslum ásamt því að heimsækja stór gagnaver. Í lok þessa áfanga þekkja nemendur uppbyggingu og virkni miðlægs búnaðar og hvernig farið er að því að tryggja að netþjónusturnar haldist í gangi þrátt fyrir bilanir, auk þess hvernig öryggi gagnanna og afrita sé best fyrir komið.

Nettækni og miðlun 3

Kennd er uppbygging á mismunandi videokerfum frá hefðbundnu sjónvarpi til HDTV. Forsendur fyrir upplausn í dreifikerfi og hvernig upplausnarþörf er reiknuð og yfirfærð yfir í bandbreidd. Farið er í muninn á fléttaðri (interlaced) skönnun og heildstæðri skönnun (progressive) og flutningsleiðir og flutningskerfi. Nemendur læra um þjöppun video- og hljóðmerkis og dreifingu þess með stafrænni mótun, hvort sem er um þráð eða í lofti. Nemendur læra einnig um MPEG-þjöppunarstaðlana og DVB-T stafrænu sjónvarpsstaðlana. Námið skiptist í fyrirlestra, dæmatíma og verklegar mælingar. Nemendur eiga að kunna skil á dreifingu hljóðmerkis um netið. Nemendur eiga að þekkja LCD skjátæknina, vinni við bilanaleit í LCD skjáum.